Ísraelska fjár­tækni­fé­lagið Ra­pyd og Arion banki hafa gert sam­komu­lag um kaup Ra­pyd á Valitor hf. Kaup­verð er 100 milljónir banda­ríkja­dala, um 12,3 milljarðar ís­lenskra króna. Áætlað er að kaupin klárist í lok árs en gerður er fyrirvari um samþykki eftirlitsaðila. Kaupin eru sögð styrkja vöruframboð Rapyd í Evrópu. Þetta kemur fram í til­kynningu til kaup­hallarinnar .

Á­hrif við­skiptanna á fjár­hag Arion banka verða já­kvæð um rúmlega 3,5 milljarða eftir skatta, sem er munurinn á sölu­verði og bók­færðu virði fé­lagsins að frá­dregnum sölu­kostnaði. Þá á­ætlar bankinn að um­fram eigið fé hækki um 8 til 11 milljarða króna.

Kaupverð Rapyd á Valitor er um þrefalt hærra en það sem SaltPay borgaði fyrir 96% hlut í Borgun á síðasta ári en SaltPay borgaði um 4,3 milljarða fyrir Borgun.

„Það hefur verið mark­mið okkar um nokkurt skeið að finna Valitor nýja eig­endur sem henta fé­laginu vel og teljum við að það hafi tekist með þessum samningum. Ra­pyd er í farar­broddi þegar kemur að nýjungum og ný­sköpun á sviði greiðslu­miðlunar og passa fé­lögin ein­stak­lega vel saman og bæta í raun hvort annað upp. Ég þakka starfs­fólki Valitor fyrir frá­bært sam­starf á undan­förnum árum og óska þeim vel­farnaðar á þeirri spennandi veg­ferð sem fram­undan er, nú sem hluti af Ra­pyd sam­stæðunni," segir Bene­dikt Gísla­son , banka­stjóri Arion banka, í tilkynningunni.

„Ís­land hefur í lengri tíma verið í for­grunni hvað varðar notkun á raf­rænum greiðslu­miðlum og ný­sköpun, en hér er mikið af hæfi­leika­ríku fólki og þróaður greiðslu­markaður. Við hyggjumst halda á­fram að byggja upp starf­semi hér og halda á­fram að fjár­festa á Ís­landi. Við erum að gera Ís­land að mið­stöð greiðslu­miðlunar sam­stæðunnar fyrir Evrópu og stefnum á að verða einn stærsti al­þjóð­legi vinnu­veitandi landsins," segir Arik Shtilman, for­stjóri og stofnandi Ra­pyd, í tilkynningunni.

Í tilkynningunni segir að „við­skipta­vinir Valitor munu ekki verða fyrir neinni röskun á þjónustu vegna kaupanna og eiga brátt að hafa að­gang að greiðslu­leiðum og fjár­tækni­þjónustu Ra­pyd sem ætlar að vinna náið með ís­lenskum við­skipta­vinum í því skyni að greiða þeim leið að næstu kyn­slóð greiðslu­lausna og gera þeim þannig kleift að auka við­skipti sín er­lendis.“

„Kaup Ra­pyd á Valitor marka tíma­mót í langri sögu Valitor og greiðslu­miðlunar á Ís­landi. Við hjá Valitor erum full til­hlökkunar að vinna með nýju fólki, Arik og starfs­fólki Ra­pyd, við að sam­þætta starf­semi fé­laganna og grípa þau tæki­færi sem sam­þættingin felur í sér, bæði fyrir fé­lagið og við­skipta­vini þess," segir Her­dís Fjeld­sted, for­stjóri Valitor, í tilkynningunni.