*

miðvikudagur, 28. júlí 2021
Innlent 13. janúar 2021 13:07

Rapyd söfnuðu yfir 38 milljörðum

Rapyd, eigendur gamla Korta, safnar 300 milljónum dollara í hlutafjárútboði. Hyggjast bæta við sig enn fleira starfsfólki.

Ritstjórn
Rapyd Europe hét áður Korta en það var keypt af ísraelska fyrirtækinu Rapyd Financial Network. Forstjóri þess er Arik Shtilman.

Fjártæknifyrirtækið Rapyd, eigandi íslenska greiðslumiðlunarfyrirtækisins Rapyd Europe (áður KORTA), hefur lokið hlutafjárútboði þar sem félagið safnaði 300 milljónum dollara, eða sem samsvarar 38,5 milljörðum króna, frá núverandi og nýjum hluthöfum, þar á meðal fjárfestingarsjóðnum Coatue.

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá í sumar keypti ísraelska félagið Rapyd Financial Network, íslenska greiðslumiðlunarfyrirtækið Korta, sem áður var að 41% hluta í eigu Kviku banka.

Á meðal núverandi hluthafa félagins eru stærstu fjárfestingarsjóðir í fjártækni í heiminum. Má þar meðal annars nefna General Catalyst, Oak FT, Tiger Global, Target Global, Durable Capital, Tal Capital, og Entrée Capital. Á meðal annarra nýrra fjárfesta eru Spark Capital, Avid Ventures, FJ Labs, og Latitude.

Hlutafjárútboðinu er ætlað að styrkja við áframhaldandi vöxt félagsins á alþjóðavísu, þ.m.t. á Íslandi. Rapyd á Íslandi hefur verið að auka umsvif sín að undanförnu með auknu vöruframboði, styrkingu innviða og ráðningum á starfsfólki.

Félagið hefur hug á að bæta við sig enn fleira starfsfólki á næstunni til að mæta ört stækkandi starfsemi. Rapyd hefur þróað kerfi sem tengir fjártæknilausnir við hvaða kerfi sem er og einfaldar þannig söluaðilum til að bjóða viðskiptavinum hvers konar greiðsluleiðir en tryggir á sama tíma að greiðslulausnirnar mæti þeim ströngu kröfum sem gilda um slíka starfsemi.

Með því að tengjast alþjóðlegu greiðslukerfi Rapyd, sem styður hundruðir staðbundinna greiðsluleiða, þ.m.t. kortafærslur, bankamillifærslur, rafveski, o.fl., geta söluaðilar tekið á móti og framkvæmt greiðslur um allan heim án þess að þurfa að leggja í miklar fjárfestingar.

Stikkorð: Korta fjártækni Rapyd