Markmið Rapyd-samstæðunnar – sem nýlega festi kaup á greiðslumiðlunarfyrirtækinu Valitor, auk þess að hafa keypt Korta í fyrra, og hyggst starfrækja evrópskar höfuðstöðvar sínar hér á landi – er að tvöfalda tekjur og umfang starfseminnar á hverju ári næstu þrjú árin.

Arik Shtilman, framkvæmdastjóri félagsins, hefur stór uppbyggingaráform næstu árin . „Framtíðarsýnin er sú að greiðslukerfi okkar verði eins konar AWS fjártækninnar,“ segir Arik og vísar þar til skýjaþjónustu tæknirisans Amazon, Amazon Web Services, sem hefur náð gríðarlegri útbreiðslu og liggur að baki ótal mismunandi tæknilausnum alls kyns fyrirtækja.

Hann sér þó ekki fyrir sér að neinn einn aðili muni ná sambærilegum yfirburðum á þeim markaði sem Rapyd starfar á og AWS hefur á sínum markaði. „Það er pláss fyrir alla á þessum markaði, það verður enginn einn sem stendur uppi í yfirburðastöðu. Kröfur viðskiptavina eru það ólíkar.“

„Til að ná því markmiði munum við þurfa að fjárfesta og byggja upp tækni og starfsemi okkar í öllum þeim yfir 100 löndum sem við stundum viðskipti í. Á tæknihliðinni mun sú uppbygging líklega taka 3-4 ár.“

Hann segir PSD2-tilskipun Evrópusambandsins – sem kveður á um nokkurs konar lagskiptingu fjármálaþjónustu upp í grunninnviði og síðan lausnir sem boðnar eru ofan á þá – að vissu leyti hafa opnað Evrópumarkaðinn fyrir þjónustu Rapyd og búið til ákveðin tækifæri fyrir fyrirtækið.

Byggja brýr milli ólíkra fjármálainnviða
Á hinn bóginn sjái félagið einnig mikil tækifæri á öðrum mörkuðum, ekki aðeins við að veita sambærilega innviðaþjónustu, heldur við að skapa eins konar brú milli þeirra ólíku kerfa sem við lýði eru víða um heiminn.

„Fjármálainnviðirnir eru gjörólíkir á mismunandi markaðssvæðum, frá Bandaríkjunum til Brasilíu til Singapúr og svo Evrópusambandsins. Ein af ástæðum þess er PSD2 en ýmislegt fleira kemur þó til.“

Arik sér ekki fyrir sér að innviðir þessara ólíku markaðssvæða muni sameinast með tíð og tíma. Þvert á móti reyni hvert land eða markaðssvæði um sig að byggja upp sína eigin fjármálainnviði á sínum forsendum, sem skapi tækifæri fyrir fyrirtæki á borð við Rapyd í að byggja eins konar brú á milli þeirra og gera þar með fyrirtækjum kleift að bjóða sínar fjártæknilausnir þvert á landamæri og þvert á undirliggjandi greiðslukerfi.

„Það sem við gerum er að sameina öll þessi lönd og þeirra sértæku lausnir og aðstæður í eitt kerfi, og búa þannig til innviði sem gera öðrum fyrirtækjum kleift að tengjast okkar lausn og nota hana í allri starfsemi sinni um allan heim.“

Nánar er rætt við Arik í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .