*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Innlent 3. mars 2016 11:27

RARIK fær 3,5 milljarða lán

Norræni fjárfestingarbankinn hefur nú samið við RARIK um 25 milljón evra lán til 15 ára.

Ritstjórn

RARIK og Norræni fjárfestingarbankinn hafa nú samið um 25 milljón evra lán til 15 ára. Það jafngildir einhverjum 3,5 milljörðum íslenskra króna. Tilefnið er að RARIK hyggst leggja jarðstrengi sem koma í staðinn fyrir um 1.450 kílómetra af háspennuloftlínum.

Framkvæmdum við þetta verkefni mun ljúka árið 2020 ef áætlanir ganga eftir en heildarkostnaður er áætlaður um 50 milljónir evra, eða 7 milljarðar íslenskra króna. Ætlunin með verkefninu er að draga úr truflunum og rafmagnsleysi vegna erfiðra veðurskilyrða á borð við ísingu og hvassviðri.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í gær hagnaðist RARIK um 2,2 milljarða á árinu sem leið, en helst voru það styrking krónunnar og lág verðbólga sem gerðu það að verkum að fjármagnsliðir voru hagstæðari en áætlað var, sem leiddi til þess að hagnaður félagsins var um fram áætlanir.