RARIK hagnaðist um 2,2 milljarða króna á árinu sem leið. Þetta kemur fram í afkomutilkynningu frá félaginu sem gefin var út í dag. Hagnaður var framar áætlunum en dróst þó saman um 17% milli ára.

EBITDA félagsins nam 4,1 milljarði króna á árinu, eða 31,3% af veltu ársins. Handbært fé frá rekstri nam þá 3,58 milljörðum króna. Rekstrartekjur ársins voru þá um 13,2 milljarðar króna. Þær hækkuðu milli ára um 5,8%.

Heildareignir RARIK námu þá 57,7 milljörðum króna í lok árs 2015 og hækkuðu um 9,2 milljarða á tímabilinu. Af þessum eignum voru skuldir 22 milljarðar og eigið fé 35,6 milljarðar. Því er eiginfjárhlutfall fyrirtækisins um 62%.

Stjórn RARIK hefur lagt til að greiddar verði 350 milljónir í arð til eiganda RARIK - ríkisins. Í tilkynningu RARIK segir að styrking krónunnar og lág verðbólga gerði að verkum að fjármagnsliðir voru hagstæðari en áætlað var, sem leiddi til þessa hagnaðar sem var um fram áætlanir.