Rekstrarhagnaður af starfsemi RARIK fyrir fjármagnsliði var 1.658 milljónir króna á fyrri hluta árs 2014. Rekstrartekjur fyrirtækisins hækkuðu um 11% frá fyrra ári, en rekstrargjöld með afskriftum um 4%.

Hækkun rekstrartekna er meiri en fyrirtækið hafði gert ráð fyrir og skýrist það einkum af aukinni raforkusölu á landsbyggðinni, ekki síst í dreifbýli, samhliða vaxandi þjónustu við ferðamenn. Að öðru leyti var regluleg starfsemi fyrirtækisins í samræmi við áætlanir.

Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 424 milljónir króna á tímabilinu, sem er nær sama fjárhæð og á fyrri hluta árs 2013.

Samkvæmt yfirliti um heildarafkomu var hagnaður á tímabilinu 1.265 milljónir króna. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var 2.455 milljónir króna eða um 38% af veltu tímabilsins. Hreint veltufé frá rekstri var 2.346 milljónir króna samanborið við 1.927 milljónir króna á sama tímabili árið 2013.

Heildareignir félagsins samkvæmt efnahagsreikningi voru 46.964 milljónir króna og heildarskuldir námu 18.866 milljónum króna. Eigið fé var 28.098 milljónir króna og eiginfjárhlutfall 59,8%.