Hagnaður RARIK á árinu 2014 nam tæpum 2,7 milljörðum króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá RARIK. Þar segir að hagnaðurinn hafi verið töluvert umfram það sem gert var ráð fyrir í áætlunum en hækkunin frá árinu 2013 var tæp 37% en þá var hagnaður ársins 1.947 milljónir króna.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var 4.719 milljónir króna eða 37,7% af veltu tímabilsins, samanborið við 36,5% á árinu 2013. Handbært fé frá rekstri var 3.837 milljónir króna. Rekstrartekjur hækkuðu um rúm 6% frá árinu 2013 og voru 12.521 milljónir króna og rekstrargjöld hækkuðu á milli ára um tæp 4,5% og voru 9.513 milljónir króna.

Rekstrarhagnaður af starfsemi RARIK fyrir fjármagnsliði (EBIT) á árinu 2014 nam rúmlega þremur milljörðum króna sem er rúmlega 12% hækkun frá fyrra ári. Í tilkynningunni segir að styrking krónunnar og lítil verðbólga hafi gert það að verkum að fjármagnsliðir voru hagstæðari en búist var við. Fjármagnsgjöld umfram fjármagnstekjur voru um 748 milljónir króna, en á árinu 2013 var niðurstaðan um 867 milljónir króna. Hagnaður var því meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Áhrif Landsnets, sem er hlutdeildarfélag RARIK, á afkomu ársins voru jákvæð um 847 milljónir króna á móti 491 milljónum á árinu 2013.

Greiða 310 milljónir í arð

Samkvæmt efnahagsreikningi námu heildareignir RARIK í árslok 48.536 milljónum króna og hækkuðu um 1.749 milljónir króna á milli ára. Heildarskuldir námu 19.041 milljónum króna og lækkuðu um 602 milljónir króna frá fyrra ári. Eigið fé var 29.495 milljónir króna og er eiginfjárhlutfall því 61% samanborið við 58% í árslok 2013. Fjárfestingar ársins voru 2.572 milljónir króna, sem er um 1.200 milljónum króna lægri fjárhæð en árið á undan. Skýrist það fyrst og fremst af mjög miklum fjárfestingum við hitaveitu á Skagaströnd og við rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja á árinu 2013.

Stjórn RARIK ohf. leggur til við aðalfund að greiddar verði 310 milljónir króna í arð til ríkissjóðs.