RARIK ohf. hagnaðist um 909 milljónir króna á fyrri hluta ársins 2017 samanborið við 882 milljóna hagnað á sama tímabili í fyrra. Þetta kemur fram í árshlutareikningi RARIK fyrir fyrri hluta ársins.

Rekstrarhagnaður af starfsemi RARIK fyrir fjármansliði (EBIT) nam 1.067 milljónum króna samanborið við 1.642 milljónir sama tímabili í fyrra og dróst því saman um 35% milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var 1.975 milljónir króna eða 27,5% af veltu tímabilsins, samanborið við tæp 34% af veltu á sama tímabili árið áður. Hreint veltufé frá rekstri var 1.951 milljón króna samanborið við 2.389 milljónir króna á sama tímabili árið 2016.

Fjármagnsliðir voru neikvæðir um 252 milljónir króna á tímabilinu, samanborið við 446 milljónir króna fyrri hluta ársins 2016. Samkvæmt tilkynningu frá RARIK er það betri niðurstaða en gert var ráð fyrir í áætlunum. Stafar það bæði af minni verðbólgu en búist var við og einnig af styrkingu krónunnar á fyrri hluta ársins.

Heildareignir RARIK samkvæmt efnahagsreikningi 30. júní 2017 voru 57.010 milljónir króna og heildarskuldir námu 20.933 milljónum króna. Eigið fé var 36.077 milljónir króna og eiginfjárhlutfall 63,3%.

Áhrif hlutdeildarfélagsins Landsnets á rekstur voru jákvæð um 257 milljónir króna, samanborið við neikvæð áhrif um 75 milljónir króna á fyrri hluta síðasta árs.

Í tilkynningu frá RARIK vegna uppgjörsins kemur fram að horfur í rekstri fyrirtækisins á árinu 2017 eru góðar. Gert er ráð fyrir að afkoma fyrir fjármagnsliði á seinni hluta ársins verði í samræmi við áætlanir. Miðað við gengisþróun undanfarna mánuði og verðbólguspár næstu mánaða verður heildarafkoma fyrirtækisins því jákvæð á árinu 2017.