Sem starfandi formaður bankaráðs Landsbanka Íslands hefur Björgólfur Guðmundsson veruleg völd og áhrif í íslensku efnahagslífi. Það hefur meðal annars birst með þeim hætti að þeir feðgar, Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor, hafa átt fast sæti meðal valdamestu manna á Íslandi í könnun Viðskiptablaðsins.

Í síðustu könnun töldu 14,2% aðspurðra Björgólf Guðmundsson áhrifamestan og sat hann þá í þriðja sæti, næst á eftir syni sínum og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Þeir feðgar hafa oftast verið spyrtir saman í viðskiptaumsvifum sínum enda verið nánir í leik og starfi.

Hér er þó farin sú leið að gera grein fyrir þeim sínum í hvoru lagi enda gefur það að mörgu leyti gleggri mynd af stöðu þeirra í viðskiptalífinu í dag, auk þess sem umsvif þeirra gefa tilefni til að nálgast málið með þeim hætti.

Staða Björgólfs Guðmundssonar í íslensku efnahagslífi mótast í senn af sögulegum bakgrunni hans og áhrifastöðu í dag. Það hljómar eins og klisja en hvernig er hægt annað en að sjá samlíkingu með ævi hans og skáldsögu Alexanders Dumas, Greifans af Monte Cristo, – sögunni af manninum sem snýr til baka með fullar hendur fjár eftir að hafa verið útskúfað. Í þessu tilviki var útskúfunin í kjölfar Hafskipsmálsins og fjársjóðseyjan reyndist vera Rússland. Það mun seint fenna yfir þessa sögu og boðuð bók um Hafskipsmálið mun væntanlega halda málinu gangandi um ókomna tíð. Ekki þar fyrir, nóg hefur drifið á daga Björgólfs Guðmundssonar undanfarin misseri.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .