Rasmus Petersen sérfræðingur í bestun og sjálfvirknivæðingu viðskiptaferla (Robotics Process Automation) hefur hafið störf á ráðgjafarsviði KPMG. Hann er tölvunarfræðingur að mennt og hefur unnið að fjölbreyttum verkefnum á sviði upplýsingatækni og breytingastjórnunar segir í fréttatilkynningu.

Auk þess hefur hann unnið að innleiðingu á skrifstofuþjörkum sem viðskiptavinir KPMG víða um heim hafa nýtt sér með góðum árangri. Rasmus hefur starfað á sviði upplýsingatækni erlendis um árabil en flutti til Íslands á síðasta ári. Undanfarin ár hefur hann starfað hjá stærsta lífeyrissjóði Dana, PFA, að greiningu, högun og innleiðingu ferla með áherslu á sjálfvirknivæðingu.

Þá starfaði hann hjá stjórnsýslu Kaupmannahafnar og nærliggjandi sveitarfélaga (Region Hovedstaden). Þar kom hann m.a. að umbótum á ferlum og upplýsingatæknikerfum sjúkrahúsa. Þar áður starfaði hann m.a. sem sjálfstæður ráðgjafi, auk þess að koma að breytingastjórnun, kerfisrekstri og innleiðingum fyrir fjölmiðlana Berlingske og Politiken.

Þróun upplýsingatækni er nú hraðari en nokkru sinni segir jafnframt í tilkynningunni. Sú þróun felur í sér mikil tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki og stofnanir til bættrar þjónustu til viðskiptavina og aukinnar skilvirkni í rekstri. Rasmus bætist nú í hóp sérfræðinga á ráðgjafarsviði KPMG hér á landi og Norðurlöndunum sem veita ráðgjöf á þessu sviði.