Ráðstefna um verkefnastjórnun á tímum breytinga verður haldin á Hótel Hilton Nordica fimmtudaginn 24. september næstkomandi. Ráðstefnan er á vegum Verkefnastjórnunarfélags Íslands (VSF) og MPM sem er félag nemenda með Master of Project Management gráðu frá Verkfræðideild Háskóla Íslands.

Er ráðstefnan haldin í samvinnu við Verkfræðideild HÍ og er í tengslum við 25 ára afmæli VSF.

Aðalheiður Sigurðardóttir verkefnastjóri og talsmaður ráðstefnunnar segir að sameiginlegt markmið félaganna með þessari ráðstefnu sé að auka umræðu og skilning á verkefnastjórnun sem fræðigrein.

„Einnig að sýna fram á hvernig hún getur nýst við ólík viðfangsefni í mismunandi atvinnugreinum. Þetta er fræðigrein sem á uppruna sinn í verkfræði- og framkvæmdageiranum, en vaxtarbroddurinn er hjá hinu opinbera og í fjármálageiranum. Bankarnir eru einmitt þær stofnanir sem hafa lagt mesta áherslu á þetta fag undanfarin ár. Fyrir hrunið í haust ráku þeir m.a. deildir á þessu sviði sem hétu verkefnastofur."

Segir Aðalheiður að verkefnastjórnun sé einfaldlega aðferðafræði sem felur í sér undirbúning, skipulagningu, áætlanagerð, vöktun og eftirlit á öllum þáttum tiltekins verkefnis. Hún nefnir sem dæmi að við endurreisn bankakerfisins hafi orðið mikil þörf á að beita verkefnastjórnun sem og við endurreisn ýmissa fyrirtækja í kjölfar hrunsins í haust. Þá hafi verkefnastjórnun mikið verið beitt í verklegum framkvæmdum, en í því felst að stórum hluta að stýra fólki innan ákveðins verkferils. Segir hún að í raun megi segja að verkefnastjórnun sé útvíkkun á hlutverki verkstjórans.

Lykilfyrirlesarar á ráðstefnunni verða Jerry Manas og Dr. Darren Dalcher. Jerry Manas er höfundur bókanna Managing the Grey Areas og Napoleon on Project Management. Aðalheiður segir að Jerry sé skemmtilegur fyrirlesari og afar áhugasamur um að koma og deila þekkingu sinni með ráðstefnugestum.

Dr. Darren Dalcher er einn fremsti fræðimaður á sviði verkefnastjórnunar, sérstaklega á sviði hugbúnaðarverkefna í Bretlandi í dag og þó víðar væri leitað. Eftir hann liggja meira en 150 ritaðar greinar og bókarkaflar. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna hér .