Ráðstöfunartekjur heimilisgeirans hækkuðu um 9,6% á milli ára í fyrra, ráðstöfunartekjur á mann jukust um 9,3% og kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann um 5,1%.

Þá jukust heildartekjur heimila landsins um 6,7% á milli ára. Þar af 7,4% hækkun á heildarlaunatekjum, 10,2% hækkun á tilfærslutekjum og 6,5% hækkun á rekstrarafgangi einstaklingsfyrirtækja. Heildareignatekjur lækkuðu um 17,4% milli ára. Hækkun heildareigna- og tilfærsluútgjalda nam 2,7% vegna 8,4% hækkunar tilfærsluútgjalda, en eignaútgjöld lækkuðu um 19,5%  á árunum 2010 og 2011.

Fram kemur í umfjöllun Hagstofunnar um málið er tekið fram að ráðstöfunartekjur heimilanna megi skilgreina sem samtölu launatekna, eignatekna, tilfærslutekna og reiknaðs rekstrarafgangs en að frádregnum eigna- og tilfærsluútgjöldum.

Þá kemur fram að tölurnar eru að mestu byggðar á skattframtölum einstaklinga, en leitast er við að laga þær sem best að uppgjöri þjóðhagsreikninga þar sem við á. Má þar nefna að hagnaður af reiknaðri eigin leigu íbúðarhúsnæðis er hér tekjufærður þótt hann komi ekki fram í framtali. Þá hafa leigutekjur verið felldar út en þær eru að mestu leyti beinar tekjutilfærslur innan heimilageirans. Söluhagnaði er einnig sleppt í uppgjörinu. Ekki er lagt mat á óframtaldar tekjur heimila, nema að því marki sem þær koma fram á launamiðum einstaklinga sem ekki hafa skilað framtali.