Breski auðkýfingurinn og Íslandsvinurinn Jim Ratcliffe trónir á toppi lista Financial times yfir hundrað fremstu frumkvöðla Bretlands. Listinn tekur saman frumkvöðla sem hafa byggt stórfyrirtæki eða eða í það minnsta fyrirtæki með himinhá verðmöt vegna fyrirheit um framtíðarvelgengni.

Ratcliffe er þekktur hér á landi fyrir jarðarkaup á Austurlandi en hann á til að mynda Grímsstaði á Fjöllum auk laxveiðijarða í Vopnafirði. Hann stofnaði fyrirtækið Ineos, sem sérhæfir sig í efnavinnslu, árið 1998. Velta fyrirtækisins nam 44,1 milljarði punda á síðasta ári og alls starfa 26 þúsund manns fyrir Ineos. Fyrirtækið keypti fyrir rúmu ári starfsemi breska olíurisans BP sem snýr að jarðolíu og -gasi.

Annar Íslandsvinur á listanum er Arik Shtilman, meðstofnandi og forstjóri fjártæknifyrirtækisins Rapyd, en hann situr í 87. sæti. Fyrirtækið keypti íslenska greiðslumiðlunarfyrirtækið Korta vorið 2020 og gekk nýlega frá kaupum á Valitor fyrir 12,3 milljarða króna, sem eru þó háð samþykki Samkeppniseftirlitsins. Í greininni segir að að Ísraelinn Shtilman hafi byggt upp fyrirtækið ITNavitgator upp frá grunni án fjárhagslegs stuðnings eða annarra fjárfesta. Þar segir að Rapyd sé metið á 6,3 milljarða punda eða um 1.123 milljarða króna

Richard Branson situr í öðru sæti en hann er auðvitað þekktastur fyrir Virgin veldið sitt. Vegferð Virgin Group hófst með hljómplötufyrirtækinu Virgin Records en samstæðan starfar í dag á breiðu sviði, svo sem í flugbransanum, hótelum ásamt því að fara með eignarhluti í bönkum.

Þá er Mike Ashley, eigandi Newcastle United fótboltaliðsins, í tíunda sætinu. Hann á íþróttavöruverslunarkeðja Sports Direct sem rekur m.a. verslun við Skógarlind 2. Ashley hefur vakið gagnrýni fyrir vinnuaðstæður í stóra vöruhúsi verslunarkeðjunnar í Derbyshrie og þykir umdeildur fyrir óhefðbundna stjórnunarhætti. Honum mislíkar „krimma“ orðsporið sitt og telur að hann fái ekki nægilega viðurkenningu fyrir að byggja upp fjögurra milljarða punda fataverslanaveldi ásamt björguninni á Hosue of Fraser árið 2018.

Malcolm Walker, stofnandi og stjórnarformaður Iceland matvöruverslunarinnar, er í ellefta sæti. Fyrirtækið opnaði verslanir hér á landi árið 2012 en í dag eru verslanir Iceland á Íslandi í eigu Samkaupa.

Efstu tíu frumkvöðlarnir á lista Financial Times:

  1. Jim Ratcliffe (Ineos)
  2. Richard Branson (Virgin Group)
  3. Mohsin Issa og Zuber Issa (EG Group)
  4. Andrew Owens (Greenergy)
  5. Simon Peckham (Melrose Industries)
  6. James Dyson (Dyson)
  7. Mike Norris (Computacenter)
  8. Simon Arora (B&M European Value)
  9. Stephen Fitzpatrick (Ovo Energy)
  10. Mike Ashley (Frasers Group)