Lækkun varð á markaði vestan hafs annan daginn í röð. Uppgjör Deere & Co. olli fjárfestum vonbrigðum, tölur um samdrátt í smásölu voru birtar og Merrill Lynch sagði vandræði vegna hruns á undirmálslánamarkaði langt frá því að vera yfirstaðin.

Deere & Co. er stærsti framleiðandi dráttarvéla í heimi. Bréf félagsins lækkuðu um 3,2% í dag í kjölfar slaks uppgjörs, þar sem hækkun efniskostnaðar kom niður á fyrirtækinu.

Nasdaq vísitalan lækkaði um 0,1% í dag. Dow Jones lækkaði um 0,9% og Standard & Poor´s lækkaði um 0,3%.

Olíuverð hækkaði um 3,1% og kostar olíutunnan nú 116,5 Bandaríkjadali.