Enn lækkuðu markaðir í Bandaríkjunum, nú fjórða daginn í röð.

Nasdaq lækkaði um 0,29%, Dow Jones um 0,49% og S&P 500 um 0,60%.

Í þessari viku hefur Nasdaq lækkað um 4,1%, Dow Jones um 4% og S&P 500 um 5,4%.

Hækkun varð við opnun í morgun eftir jákvæðar tölur frá General Electric og IBM. Eftir hádegi fóru markaðir hins vegar að lækka aftur.

General Electric greindi frá því að hagnaður fjórða ársfjórðungs yrði meiri en gert hafði verið ráð fyrir eða 6,82 milljarðar bandaríkjadala. Þá hefur útflutningur fyrirtækisins aukist, svo sem þotuhreyflar.

Þá hefur útflutningur tölvurisans IBM einnig aukist en fyrirtækið tilkynnti að arðgreiðslur myndu að öllum líkindum hækka úr 7,9 dölum á hvern hlut í 8,3 dali. Í næstu viku mun fyrirtækið tilkynna afkomu fjórða ársfjórðungs en Bloomberg greinir frá því að búast megi við jákvæðum tölum.

George W. Bush, bandaríkjaforseti sagði að hið opinbera myndi bæta allt að 150 milljörðum bandaríkjadala við efnahag landsins og væri tilgangurinn að róa markaði. Bloomberg fréttaveitan segir skiptar skoðanir um þessa áætlun ríkisstjórnarinnar.

Fjármálafyrirtæki lækkuðu nokkuð í dag og lækkaði fjármálageirinn í S&P 500 vísitölunni um 1,8% í dag og hefur lækkað um 13% frá áramótum.

Þá tilkynnti Sprint, þriðja stærsta símafyirtæki Bandaríkjanna að fyrirtækið myndi segja upp allt að 4.000 manns á næstunni til að hagræða í rekstri en fyrirtækið tapaði um 1,2 milljónum bandaríkjadala á síðasta ári vegna fækkunar á viðskiptavinum.

Fitch bankinn lækkaði lánsmat sitt hjá verðbréfafyrirtæknu Ambac Financial og við það tók markaðurinn snúning niður á við. Fitch lækkaði lánshæfismat fyrirtækisins úr AAA niður í AA og útlilokaði ekki frekari lækkun á lánshæfismati. Þá tilkynnti Ambac að fyrirtækið væri hætt við hlutafjárútboð sitt en til stóð að hækka hlutafé fyrirtækisins um einn milljarð bandaríkjadala.

Væntingavísitalan jókst í janúar úr 75,5% í 80,5 og segir viðmælandi Reuters að það hafi jákvæð áhrif á bandarískt efnahagslíf.