Hlutabréf lækkuðu í Bandaríkjunum í dag og hafa ekki verið lægri í 18 mánuði.

Nasdaq lækkaði um 2,3%, Dow Jones lækkaði um 1,75% og S&P 500 lækkaði um 2,2%.

Bankar á borð við Citigroup, JP Morgan og Merrill Lynch leiddu lækkanir dagsins og hefur gengi fjármálafyrirtækja ekki verið lægra frá því í maí 2003 að því er Bloomberg fréttaveitan greinir frá.

Gengi fjármálafyrirtækja hefur nú lækkað sex daga í röð. Reuters fréttastofan greinir frá því að vanskil hafi aukist á húsnæðismarkaði í Bandaríkjunum og hefur eftir viðmælenda sínum að bæði það og þær miklu upphæðir sem bankar og lánasjóðir hafi þurft að afskrifa á síðustu misserum dragi nú fjármálafyrirtækin niður.

Þá greinir MarketWatch frá orðrómi um það að Merrill Lynch ætli að stíga út af húsnæðislánamarkaði en bankinn er einn sá stærsti á því sviði í Bandaríkjunum.