*

miðvikudagur, 23. september 2020
Innlent 7. ágúst 2020 16:25

Rauð bylgja í Kauphöllinni

Öll félög Kauphallarinnar, að undanskildum Heimavöllum, lækkuðu í 2,4 milljarða viðskiptum dagsins.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,2% í 2,4 milljarða króna veltu Kauphallarinnar í dag. Öll félög hallarinnar lækkuðu, að undanskildum Heimavöllum. Fjárfestar virðast óttast aðra bylgju Covid-veirunnar hér á landi. Krónan veiktist einnig gagnvart öllum helstu gjaldmiðlum heims. 

Mesta veltan var með bréf Arion banka sem lækkuðu um 1,9% í 594 milljóna veltu. Bréf bankans standa nú í 68,6 krónum á hlut. 

Næst mesta veltan var með bréf Festi sem lækkuðu um 1,8% í 337 milljóna viðskiptum. Gengi Festi, sem birti uppgjör fyrir annan ársfjórðung í gær, byrjaði daginn í plús en lækkaði eftir því sem fór að líða á daginn.

Fasteignafélögin þrjú féllu öllu um meira en 2,5% í dag. Af þeim lækkaði Reginn mest eða um 3,6% í 48 milljóna viðskiptum. Gengi Eikar lækkaði um 3,3% og Reitir lækkuðu um 2,7%. 

Tryggingafélögin þrjú voru einnig meðal þeirra félaga sem lækkuðu mest í Kauphöllinni í dag. Vís lækkaði um 3,2% í 89 milljóna viðskiptum. Sjóvá lækkaði um 2,7% og TM um 2,5%. 

Stikkorð: Nasdaq Kauphöllin