Rautt er yfir að litast í Kauphöllinni eftir fyrstu viðskipti dagsins en þegar þetta er skrifað hefur gengi 14 félaga, af 20 sem skráð eru á aðalmarkað, lækkað.

Gengi bréfa Marel hefur hækkað mest, um 2,55%. Þá hefur gengi flugfélagsins Icelandair lækkað um 2,38%.

Gengi bankanna þriggja á markaði hefur lækkað nokkuð. Gengi bréfa Kviku hefur lækkað um 1,46% og Arion banka um 1,56%. Gengi hlutabréfa í Íslandsbanka hefur lækkað um 1,34% og er komið niður í 118 krónur á hlut. Gengi bréfa bankans er nú einungis 0,9% yfir söluverðinu í útboði Bankasýslunnar í mars.

Þá hefur til að mynda gengi VÍS lækkað um 1,8%, Eimskip um 1,84%, Haga um 1,5%, og Símans um 1,7%.

Úrvalsvísitalan OMXI10 hefur lækkað um 1,87% frá opnun en heildarvelta viðskipta það sem af er dags hefur numið 1,2 milljörðum króna.