Einungis eitt félag hækkaði í virði á hlutabréfamarkaði kauphallar Nasdaq á Íslandi í dag, það er Brim með 0,33% hækkun í 102 milljóna króna viðskiptum.

Öll önnur félögin á aðalmarkaði lækkuðu í virði í dag, en heildarviðskiptin námu 1,2 milljarði króna. Lækkaði Úrvalsvísitalan í þeim um 2,13%, niður í 2.256,78 stig og er hún þar með komið niður fyrir lokagildið á miðvikudaginn í síðustu viku.

Mest lækkun var á gengi Sýnar, eða um 3,51%, niður í 35,70 krónur, í 32 milljóna viðskiptum en bréf félagsins hækkuðu á föstudag um 7,40% og fór lokagengi þeirra í 37 krónur eftir fréttir um mögulegan 6 milljarða hagnað af sölu fjarskiptainnviða félagsins.

Næst mest lækkun var á bréfum Eimskipafélags Íslands, eða um 3,19%, niður í 182 krónur, í mjög litlum viðskiptum þó eða fyrir 966 þúsund krónur.

Þriðja mesta lækkunin var á bréfum Origo, eða um 2,56%, niður í 35,20 krónur, í 16 milljóna króna viðskiptum.

Mestu viðskiptin 15% heildarviðskiptanna

Mestu viðskiptin voru með bréf Arion banka, eða fyrir 180,7 milljónir króna, en bréf bankans lækkuðu um 1,48% og fór gengi bréfanna niður í 79,60 krónur. Af 1,2 milljarða heildarviðskiptum námu þessi mestu viðskipti með bréf í einu félagi í dag rétt um 15% þeirra.

Næst mestu viðskiptin voru með bréf Festi, eða fyrir 153,9 milljónr króna, og fór gengi bréfanna niður í 153 krónur, eftir 1,61% lækkun í dag.

Þriðju mestu viðskiptin voru svo með bréf tryggingafélagsins VÍS, eða fyrir 132,5 milljónir króna, en bréfin lækkuðu um 2,43%, niður í 12,04 krónur.

Krónan veiktist gagnvart öllum helstu myntunum

Íslenska krónan heldur áfram að veikjast, í dag gagnvart öllum helstu viðskiptamyntum sínum, mest þó gagnvart sænsku krónunni sem styrktist um 0,73% gagnvart krónunni og fæst hún nú á 15,919 krónur.

Næst mest styrktist norska krónan gagnvart þeirri íslensku eða um 0,55%, og fæst hún nú á 15,056 krónur. Þriðja mesta styrkingin var á Bandaríkjadal, eða um 0,47%, sem fæst nú á 139,27 krónur. Loks má nefna að evran styrktist um 0,24% gagnvart krónunni og fæst hún nú á 164,56 krónur.