*

sunnudagur, 24. október 2021
Innlent 25. janúar 2021 10:52

Rauð vikubyrjun á mörkuðum

Hlutabréf í kauphöllinni hafa lækkað töluvert í morgun. Þar af mest í Icelandair og Arion, en 10% af bankanum er nú til sölu.

Ritstjórn

Rautt er á öllum viðskiptum á hlutabréfamarkaði kauphallar Nasdaq á Íslandi í byrjun dags nú í vikubyrjun þar sem öll félög sem viðskipti hafa verið með þegar þetta er skrifað hafa lækkað í virði.

Einungis þrjú félög hafa staðið í stað, það er Origo, Skeljungur og TM, en mest lækkun er á bréfum Icelandair eða um 5,07% þegar þetta er skrifað, niður í 1,59 krónur í 84 milljóna króna viðskiptum, en bréf félagsins hækkuðu fyrir helgi á annars rauðum degi í kauphöllinni.

Næst mest lækkun er á bréfum Arion banka, eða 3,33% í 101 milljóna króna viðskiptum þegar þetta er skrifað og hefur gengi bréfa bankans farið niður í 94,70 í þeim. Skýringanna á lækkun bréfa Arion banka er að mati Fréttablaðsins að leita til þess að stærsti hluthafinn í bankanum, Taconic Capital hafi fyrir helgi hafið söluferli á tæplega helmings hlut sínum í bankanum, eða sem samsvarar 10% bréfa bankans.

Fjárfestar hafa frest til klukkan sex á morgun til að skila inn tilboðum í bréfin, en markaðsvirði hlutarins, sem samsvarar um 170 milljón hlutum, var fyrir helgi um 17 milljarðar króna en í heildina á vogunarsjóðurinn 23,2% í bankanum. Miðað við núverandi gengi hefur markaðsvirði bréfanna lækkað niður í um 16,1 milljarð króna frá því fyrir helgi.

Viðskiptablaðið greindi frá því í þar síðustu viku að annar vogunarsjóðanna sem áttu hlut í gamla Kaupþingi og keyptu í Arion af þrotabúinu hefði selt fyrir um 10 milljarða króna í bankanum síðustu vikurnar. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,55%, niður í 2.631,12 stig í viðskiptunum, en á dögunum fór lokagengi hennar í fyrsta sinn yfir 2.700 stigin.