Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq Iceland lækkaði um 1,02% í viðskiptum dagsins. Heildarvelta dagsins nam 16,9 milljöðrum. Þar af var velta dagsins á skuldabréfamörkuðum 14,4 milljarðar og velta á hlutabréfamarkaði tæpir 2,5 milljarðar. Úrvalsvísitalan stendur því nú í 1.697,85 stigum.

Í dag var tilkynnt að formlegu stjórnarmyndunarsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar var slitið. Ekki er útilokað að slitin hafi haft áhrif á markaðinn. Öll fyrirtæki á markaði lækkuðu eða héldust í stað að undanskildu gengi bréfa Haga.

Gengi bréfa Icelandair lækkaði mest í viðskiptum dagsins eða um 2,51% í 367,3 milljón króna viðskiptum. Gengi bréfa í HB Granda lækkaði einnig talsvert - eða um 1,5% í ríflega 100 milljón króna viðskiptum.

Hins vegar hækkaði gengi bréfa í Högum um 1,53% í 292 milljón króna viðskiptum.

Vísitölur GAMMA

Skuldabréfavísitala GAMMA hækkaði lítillega í dag í 10 milljarða viðskiptum. Verðtryggði hluti vísitölunnar lækkaði lítillega í 0,3 milljarða viðskiptum og óverðtryggði hluti vísitölunnar hækkaði um 0,1% í 9,7 milljarða viðskiptum.

Markaðsvísitala GAMMA lækkaði um 0,3% í dag í 13,5 milljarða viðskiptum. Hlutabréfavísitala GAMMA lækkaði um 0,9% í dag í 2,4 milljarða viðskiptum. Vísitala fyrirtækjaskuldabréfa hækkaði um 0,1% í dag í 1 milljarða viðskiptum.