Gengi hlutabréfa 12 félaga, af þeim 20 sem skráð eru á Aðalmarkað Kauphallar Nasdaq á Íslandi, lækkaði í viðskiptum dagsins. Fyrir vikið lækkaði OMXI10 úrvalsvísitalan um 0,87% og stendur hún nú í 2.114,94 stigum.

Gengi bréfa Icelandair lækkaði mest í viðskiptum dagsins, eða um 3,78% í 50 milljóna króna veltu. Ætla má að rekja megi lækkunina til þess að félagið greindi frá því að ekki sé gert ráð fyrir Boeing 737 Max þotunum í sumaráætlun félagsins .

Næst mest lækkaði gengi Marels, eða um 1,47% í 682 milljóna króna veltu, en félagið sendi frá sér afkomuviðvörun í lok síðustu viku.

Gengi aðeins eins félags hækkaði í viðskiptum dagsins og var þar um að ræða gengi Arion banka, sem hækkaði um 0,49% í 203 milljóna króna veltu.