*

föstudagur, 14. ágúst 2020
Innlent 14. maí 2020 16:30

Rauður dagur í Kauphöllinni

15 af 20 félögum Kauphallarinnar lækkuðu í 1,6 milljarða krónu viðskiptum dagsins.

Ritstjórn

OMXI10 vísitalan lækkaði um 0,63% í 1,6 milljarða krónu viðskiptum dagsins. Einungis tvö félög hækkuðu en það voru bréf Kviku sem hækkuðu um 1,73% í 170 milljóna krónu viðskiptum og bréf Eimskips sem hækkuðu um 3,08% í einna milljón króna viðskiptum. 

Mestu viðskiptin voru með bréf Marels í 484 milljóna króna viðskiptum en verð bréfanna hélst óbreytt í 655 krónum frá lokun markaða í gær. Þriðju mestu viðskiptin og næst mesta lækkun dagsins voru með bréf Regins sem lækkuðu um 4,99% eftir 138 milljóna krónu viðskipti í dag. 

Bréf Sýnar lækkuðu mest í dag eða um 5,17% sem má rekja til árshlutauppgjör félagsins í gær. Þriðja mesta lækkunin var á bréfum TM sem féllu um 4,17% í 20 milljóna krónu viðskiptum. Gengi bréfa Icelandair hélst óbreytt í 1,68 krónum á hlut í 20 milljóna krónu viðskiptum. 

Gengi íslensku krónunnar hélst óbreytt gagnvart evrunni og breska sterlingspundinu en veiktist um 0,23% gagnvart dollaranum og 0,12% gagnvart japanska yeninu. 

Stikkorð: Marel Eimskip Kauphöllin Kvika Sýn