Aðeins þrjú félög hækkuðu í viðskiptum dagsins á aðalmarkaði í Kauphöllinni. Það eru Eimskip, Skeljungur og Íslandsbanki. Gengi hlutabréfa annarra félaga á aðalmarkaði Kauphallarinnar annaðhvort lækkuðu eða stóðu í stað. Viðskipti dagsins voru hins vegar frekar lítil og var heildarvelta á aðalmarkaði 3,4 milljarðar og lækkaði úrvalsvísitalan um 0,71%.

Eimskip hækkaði um 2,12% í um 170 milljón króna viðskiptum. Skeljungur hækkaði um 2,16% í 15 milljón króna viðskiptum. Gengi hlutabréfa í Íslandsbanka hækkuðu lítillega, eða um 0,32%, í 95 milljón króna viðskiptum.

Tryggingafélögin Sjóvá og VÍS auk Arion banka lækkuðu mest allra félaga í viðskiptum dagsins á aðalmarkaði. Sjóvá lækkaði um 2,14% í 150 milljón króna viðskiptum, VÍS um 2 prósentustig í 157 milljón króna viðskiptum en Arion um 2,13% í rúmlega 900 milljón króna viðskiptum og var mesta veltan á markaði með bréf Arion. Að bankanum undanskildum var mesta veltan með bréf í Kviku banka upp á rúmlega 490 milljónir króna og með bréf í Marel upp á um 380 milljónir króna.

Flugfélögin Icelandair og Play lækkuðu bæði í viðskiptum dagsins. Gengi bréfa Icelandair lækkaði um 1,16% í 213 milljón króna viðskiptum og gengi bréfa Play um 2,53% í 37 milljón króna viðskiptum.