Úrvalsvísitalan féll um 1,1% í 4,2 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag.

Mesta veltan var með bréf Marels sem stóðu í stað í 1,3 milljarða króna viðskiptum. Gengi Marels stendur nú í 554 krónum á hlut.

Aðeins tvö félög hækkuðu í viðskiptum dagsins. Það eru Reitir um 0,6% og Alvotech um 0,5% í 240 milljón króna viðskiptum.

17 af 23 félögum aðalmarkaðar lækkuðu í viðskiptum dagsins. Arion lækkaði um 3,4% í 540 milljóna veltu og stendur gengi bréfa bankans nú í 142,5 krónum á hlut. Þá lækkuðu Skel fjárfestingarfélag og Eik í kringum 3% í óverulegri veltu.

Hlutabréfaverð Eimskips og Sýnar lækkuðu um 2% eða meira. Þá lækkaði gengi bréfa Kviku banka um 1,3% í 130 milljóna veltu.

Á First North markaðnum lækkaði gengi bréfa Play um 3,6% í tæplega 50 milljóna veltu. Þá lækkaði Hampiðjan um 2,16% í 30 milljóna veltu, en félagið birti uppgjör fyrir árið 2022 eftir lokun markaða í gær.