Jákvæðar hagvaxtartölur í Frakklandi og Þýskalandi komu ekki í veg fyrir að gengi hlutabréfa hélt áfram að lækka við opnun hlutabréfamarkaða á meginlandi Evrópu í dag. Óvissan á Ítalíu og kjölfar þess að Mario Monti tók sæti forsætisráðherra af Silvio Berlusconi um helgina ræður meiru um þróun mála, að sögn Bloomberg.

Monti stendur frammi fyrir krefjandi verki, bæði þarf hann að fá stuðning ítalskra þingmanna um ágæti aðhaldsaðgerða sinna, telja lánardrottnum Ítala trú um að ríkisstjórnin geti greitt niður skuldir sínar á sama tíma og hagvöxtur verði keyrður upp í meðaltalið á evrusvæðinu.

FTSE-vísitalan í Bretlandi hefur það sem af er dags lækkað um 0,69%, Dax-vísitalan í Þýskalandi farið niður um 1,71% og CAC 40-vísitalan í Frakklandi lækkað um 1,59%.