Hlutabréfaverð flestra félaga hefur lækkað það sem af er degi í Kauphöll Íslands. Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1,6% í viðskiptum dagsins og stendur nú í 3.027 stigum.

Mest er lækkunin hjá Icelandair og Högum sem bæði birtu uppgjör eftir lokun markaða í gær. Lækkun bréfa Icelandair stendur nú í 3,8% það sem af er degi og kosta bréfin nú 2,01 krónu á hlut. Icelandair tapaði um 6,5 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi og tók afkomuspá sína úr gildi fyrir árið.

Þá hafa bréf Haga lækkað um 4,2% í viðskiptum dagsins en félagið skilaði 4 milljarða hagnaði á síðasta rekstrarári samkvæmt ársuppgjöri sem birt var eftir lokun Kauphallarinnar í gær . Hitt stóra smásölufélagið Festi, hefur einnig lækkað um 2,5% í viðskiptum dagsins.

Bréf Eimskips, Reita og Marel hafa lækkað um hátt í 2% í viðskiptum dagsins. Hlutabréfaverð í Marel er nú um 0,9% lægra en þegar félagið birti uppgjör eftir lokun markaða á miðvikudaginn . Marel hækkaði nokkuð í fyrstu viðskiptum eftir birtingu uppgjörsins í gær en lækkaði á ný síðdegis í gær.