Þrjár byggðir, Hrísey, Grímsey og Kópasker, hafa verið tekin inn í verkefnið Brothættar byggðir að því er segir í frétt á vefsíðu Byggðastofnunar. Um er að ræða verkefni á vegum Byggðastofnunar þar sem reynt er að efla byggðarlög sem standa höllum fæti.

Þau sveitarfélög sem fyrir voru í verkefninu eru Bíldudalur, Raufarhöfn, Breiðdalshreppur og Skaftárhreppur. Margar byggðir út um allt land hafa auk þess sótt um að tá að taka þátt í verkefninu. Þar má nefna Stöðvarfjörð, Hofsós og Árneshrepp.

Haldið áfram á Raufarhöfn

Samstarfssamningur um framtíð verkefnisins Raufarhöfn og framtíðin var undirritaður á dögunum. Kristján Þ. Halldórsson, sem situr í verkefnisstjórn verkefnisins, segir í samtali við Viðskiptablaðið að verið sé að vinna að ýmsum verkefnum frekar en einhverri einni töfralausn.

„Svo maður nefnir dæmi um hluti sem hefur verið unnið með þá má nefna aflamark Byggðastofnunar,“ segir Kristján. „Það var í samræmi við áherslur íbúa að það vantaði fyrst og fremst aflaheimildir. Það hefur þýtt að það hefur verið stöðugri vinna í landvinnslunni.“

Kristján segir þó að hið sérstaka aflamark sem kom í gegnum Byggðastofnun sé sjálfstætt verkefni sem tengist ekki verkefninu Raufarhöfn og framtíðinni með beinum hætti. Á vegum Raufarhafnar og framtíðarinnar hafi verið unnið að ýmsum verkefnum í ferðaþjónustu, Heimskautagerði og náttúrurannsóknastöð. Þessi smáu verkefni séu þess eðlis að það taki lengri tíma að sýna fram á árangur í formi fleiri starfa.