Rauði kross Íslands hefur veitt Símanum viðurkenningu fyrir veittan stuðning við starf hreyfingarinnar. Síminn er einn af bakhjörlum Rauða krossins en bakhjarlar leggja fram 300.000 krónur eða meira á ári til hjálparstarfs Rauða krossins.

Bakhjarlar fá vandaðan viðurkenningarskjöld fyrir stuðninginn. Þeim býðst einnig að fá heimsókn starfsmanna eða sjálfboðaliða Rauða krossins sem segja frá því hvernig fjárstyrknum er varið. Þá er bakhjörlum boðið að senda fulltrúa á aðalfund Rauða kross Íslands.

Síminn og Rauði kross Íslands eiga að baki afar farsælt samstarf í símasöfnunum á vegum hreyfingarinnar segir í tilkynningu. Síminn og Rauði kross Íslands gerðu á árunum 2002-2004 samkomulag um stuðning Símans við Hjálparsíma Rauða krossins í síma 1717. Hjálparsími Rauða krossins er gjaldfrjáls sími sem er opinn allan sólarhringinn fyrir þá sem finnst þeir vera komnir í öngstræti en vilja þiggja aðstoð til að sjá tilgang með lífinu.