Hrein raunávöxtun lífeyrissjóða landsins lækkaði gríðarlega á milli áranna 2006 og 2007, samkvæmt upplýsingum úr skýrslu sem Fjármálaeftirlitið tók saman um ársreikninga lífeyrissjóða fyrir árið 2007. Hrein raunávöxtun var 0,5% árið 2007 – en raunávöxtun þýðir ávöxtun sjóðanna umfram verðbólgu. Hrein raunávöxtun var 10% árið 2006. Meðaltal raunávöxtunar lífeyrissjóðanna síðastliðin 5 ár er 9,1% og ef ávöxtunin 2007 er skoðuð í samhengi við þá tölu, má sjá að hún er mjög lág.

Heildareignir lífeyrissjóðanna námu í árslok 2007 tæpum 1.700 milljörðum króna, samanborið við um 1.500 milljarða króna eign í árslok 2006. Er um 13% aukningu að ræða á milli ára, sem samsvarar 7% raunaukningu miðað við þróun verðlags á þessu tímabili. Lífeyrissjóðum fækkaði á milli áranna. Við lok árs 2007 voru 37 starfandi sjóðir samanborið við 41 árið áður. Fækkunina má rekja til sameiningar sjóða og er gert ráð fyrir að sú þróun haldi áfram.

Samkvæmt skýrslu Fjármálaeftirlitsins eru 10 stærstu lífeyrissjóðirnir með í kringum 80% af heildareignum alls lífeyriskerfisins. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins er stærsti lífeyrissjóður landsins og nam hrein eign sjóðsins rúmum 316 milljörðum í lok árs 2007, samanborið við 282 milljónir í lok árs 2006. Lífeyrisþegar fengu um 46 milljarða greidda út árið 2007. Þá hækkuðu iðgjöld til lífeyrissjóðanna úr 96 milljörðum í 146 milljarða frá árinu 2006 til 2007, eða um rúm 50%.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .