Á árinu 2007 var raunávöxtun lífeyrissjóðanna 0,48%, en árið áður var raunávöxtun ríflega 10%. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar síðustu fimm ára er því 9,1%, að því er kemur fram í frétt Fjármálaeftirlitsins. Meðaltal síðustu 10 ára er 5,9%.

Þrátt fyrir lága ávöxtun jukust eigur lífeyrissjóðanna að raungildi um 7% á síðasta ári. Starfandi lífeyrissjóðum fækkaði á síðasta ári, en þeir voru 37 við árslok. Í frétt FME segir að fækkunin sé tilkomin vegna sameininga sjóða, og reiknað er með að sama þróun muni verða áfram í þeim efnum. Tíu stærstu lífeyrissjóðir landsins eiga nú um 80% af heildareignum þeirra.

Iðgjöld jukust mikið á síðasta ári, eða um 52%. Lágmarksiðgjöld hækkuðu úr 10% í 12% á síðasta ári. Heildariðgjöld síðasta árs námu 146 milljörðum.