Hrein raunávöxtun lífeyrissjóðanna, sameignar- og séreignardeilda, þ.e. ávöxtun umfram verðbólgu var 5,4% árið 2013 samanborið við 7,3% á árinu 2012. Þetta kom fram á fundi Fjármálaeftirlitsins um stöðu lífeyrissjóðanna 2013.

Raunávöxtun sjóðanna hefur verið mjög góð síðastliðin tvö ár og vel yfir 3,5% ávöxtunarviðmiði. Samsvarandi ávöxtun var 3,6% síðastliðin tíu ár og 3,9% síðastliðin 20 ár.

Sjóðir með ábyrgð ríkis og sveitarfélaga voru með tryggingafræðilegan halla upp á 596 milljarða eða -38% að meðaltali sem hlutfall af skuldbindingum. Sjóðir án ábyrgðar launagreiðenda voru með halla upp á 68 milljarða eða -2% sem hlutfalli af skuldbindingum.