Raunávöxtun Lífeyrissjóðs sjómanna var 16,4% á árinu 2004 eða 21,3% nafnávöxtun. Er það besta ávöxtun í sögu sjóðsins, en árið 2003 var raunávöxtun sjóðsins 15,3%. Ef allar eignir sjóðsins eru metnar á markaðsverði er raunávöxtunin árið 2004 19,8%. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar sl. 5 ár er 5,7%.

Þessa góðu ávöxtun á nýliðnu ári má rekja til fjárfestingarstefnu sjóðsins og hagstæðra skilyrða á verðbréfamörkuðum, sérstaklega innanlands. Innlend hlutabréf sjóðsins hækkuðu um 78% á meðan Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hækkaði um 59%, en vægi innlendra hlutabréfa í eignasafni sjóðsins jókst á árinu. Ávöxtun á erlendum hlutabréfum var ágæt á árinu, heimsvísitalan hækkaði um 14% í dollurum, og þar sem sjóðurinn varði stóran hluta erlendra eigna sinna hafði styrking krónunnar minni áhrif en ella.

Fjárfestingatekjur námu samtals 11.846 milljónum króna og hækkuðu um 3.129 milljónir króna á milli ára. Hrein eign til greiðslu lífeyris var 68.451 milljónir kr. í árslok 2004 og hækkaði hún um 12.205 milljónir frá fyrra ári eða 21,6%. Eignaskiptingin var með eftirfarandi hætti í árslok 2004: 60% af eignum sjóðsins voru í innlendum skuldabréfum, 20% í innlendum hlutabréfum og 20% í erlendum verðbréfum.

Á árinu greiddu 653 launagreiðendur iðgjöld til sjóðsins, samtals að fjárhæð 1.874 milljónir króna, fyrir 5.284 sjóðfélaga. Sjóðfélagar í árslok 2004 voru samtals 39.006. Lífeyrisgreiðslur námu 1.404 milljónum króna og heildarfjöldi þeirra sem fékk greiddan lífeyri á árinu var 3.719.

Lífeyrissjóður sjómanna er fjórði stærsti lífeyrissjóður landsins og stefnir sjóðurinn að sameiningu við Lífeyrissjóðinn Framsýn 1. júní nk.