Nafnávöxtun Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR), stærsta lífeyrissjóðs landsins, nam 14,9% á síðasta ári og hrein raunávöxtun 10,9% að því er fram kemur á vef LSR.

LSR var með hæstu ávöxtun meðal stærstu lífeyrissjóða landsins, örlítið hærri en LIVE, næst stærsta lífeyrissjóðsins, en hrein raunávöxtun LIVE nam 10,8%. Hjá Gildi nam raunávöxtunin 9,7% og hjá Birtu var raunávöxtunin 8,75%. Því má segja að almennt hafi árið hafi verið afar farsælt fyrir fjárfestingar lífeyrissjóðanna og var ávöxtun lífeyriskerfisins vel umfram 3,5% raunávöxtunarviðmiðið.

Heildareignir LSR voru um 1.168 milljarðar króna í árslok og voru hreinar fjárfestingartekjur um 152 milljarðar króna á árinu. Hrein raunávöxtun A-deildar var 10,6% á árinu, B-deildar 12% og hjá Séreign LSR var Leið I með 13,3% raunávöxtun, Leið II með 8,3% og Leið III með 0,6%.