Gildi-lífeyrissjóður hefur gengið frá milliuppgjöri fyrir tímabilið 1. janúar - 30. júní 2007. Hrein raunávöxtun sjóðsins á ársgrundvelli fyrstu sex mánuði ársins var 17,6% og nafnávöxtun 23,9% segir í frétt sjóðsins.

Fjárfestingartekjur á tímabilinu námu 23,5 milljörðum króna og voru 7,7 milljörðum hærri en á sama tímabili í fyrra. Þessa góðu afkomu má einkum rekja til góðrar ávöxtunar á innlendum hlutabréfum sjóðsins, en þau skiluðu 69% raunávöxtun á ársgrundvelli. Innlend skuldabréf gáfu 4,2% raunávöxtun og erlend verðbréf 1,2% raunávöxtun í krónum talið. Gjaldmiðlastýring sjóðsins skilaði mjög góðri afkomu á tímabilinu.

Iðgjöld til sjóðsins voru 4,8 milljarðar króna fyrstu 6 mánuði ársins og hækkuðu um um 26% frá fyrra ári. Greiddur lífeyrir nam 2,9 milljörðum og hækkaði um 21% á milli ára, en réttindi lífeyrisþega hjá Gildi voru hækkuð um 10% 1. janúar 2007 og hafa því samtals verið hækkuð um 17,7% á sl. 2 árum.

Hrein eign Gildis til greiðslu lífeyris nam 240,7 milljörðum króna í lok júní 2007 og hefur hækkað um 25,3 milljarða frá ársbyrjun. Eignir sjóðsins skiptast þannig að 44% eru í innlendum skuldabréfum, 29% í innlendum hlutabréfum og 27% í erlendum verðbréfum.

Fjármagnstekjur sjóðsins hafa lítið breyst frá milliuppgjöri þrátt fyrir óróleika á fjármálamörkuðum og tilheyrandi leiðréttingu í ágúst, þar sem eignir sjóðsins höfðu hækkað verulega í júlímánuði. Staða sjóðsins er mjög sterk, sjóðurinn er langtímafjárfestir og uppbygging fjárfestingarstefnu gerir ráð fyrir sveiflum á fjármálamörkuðum núna eins og hingað til.