Í nýrri skýrslu OECD (Revenue Statistics 2004) eru birtar upplýsingar um þróun skatttekna ríkis og sveitarfélaga á árinu 2002 og bráðabirgðatölur fyrir árið 2003. Þar kemur fram að hlutfall skatttekna af landsframleiðslu lækkaði eða stóð í stað á milli áranna 2001 og 2002 í 20 af 30 aðildaríkjum samtakanna, þar á meðal á Íslandi. Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir árið 2003 snerist þessi þróun við og hlutfallið hækkaði á nýjan leik í 13 af þeim 23 aðildarríkjum sem skiluðu inn gögnum.

Í vefriti fjármálaráðuneytisins er bent á að samkvæmt fréttatilkynningunni var skatthlutfallið hér á landi 38,1% árin 2001 og 2002. Fyrstu bráðabirgðatölur fyrir árið 2003 bentu til nokkurar hækkunar á hlutfallinu. Endurskoðaðar tölur sem byggjast á nýútkomnum ríkisreikningi og áætlunum Hagstofu um afkomu sveitarfélaga sýna hins vegar helmingi minni hækkun á hlutfallinu en bráðabirgðatölurnar, eða úr 38,1% árið 2002 í 39,3% á árinu 2003, sem er ívið lægra hlutfall en á árinu 2000.

Í skýrslu OECD er bent á að mismunandi staða efnahagsmála eftir löndum sé mikilvægur skýringarþáttur breytinga á skatthlutfallinu. Í löndum sem búa við mikinn hagvöxt og almenna efnahagsuppsveiflu er eðlilegt að skatthlutfallið hækki en lækki í löndum þar sem ríkir samdráttur eða efnahagsleg stöðnun.

Slík þróun endurspeglar sveiflujöfnunarhlutverk ríkisfjármálanna.
Þetta atriði er líka meginskýringin á hækkun skatthlutfallsins hér á landi á
milli áranna 2002 og 2003. Aukinn kaupmáttur almennings og mikil gróska í
atvinnulífinu skila sér í meiri veltu, auknum hagvexti og vaxandi tekjum ríkis
og sveitarfélaga. Þannig stafar öll tekjuaukning ríkissjóðs á árinu 2003, sem
nam um 18 milljörðum króna, af auknum umsvifum í efnahagslífinu. Annars
vegar hjá heimilunum sem birtist meðal annars í auknum bílakaupum, kaupum á varanlegum neysluvörum (heimilistækjum o.fl.) og íbúðafjárfestingu. Hins vegar hjá fyrirtækjum, bæði vegna batnandi afkomu og hækkunar á tekjuskattsgreiðslum og hærri greiðslna af tryggingagjaldi vegna launahækkana.

Á móti þessum tekjuauka vegna efnahagsuppsveiflunnar vega áhrif meira en helmings lækkunar eignarskatta á einstaklinga og fyrirtæki.