Samtök atvinnulífsins (SA) standa fyrir morgunverðarfundi í Húsi atvinnulífsins á morgun, þar sem rætt verður helst um raunhæfnimat og gagnsemi þeirra fyrir fyrirtæki í atvinnulífinu. Meðal ræðumanna er Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sem er forstöðumaður mennta- og nýsköpunarsviðs SA.

„Það eru margir í atvinnulífinu sem kunna mjög margt en eru ekki með formlega menntun, og þá er verið að meta þá kunnáttu til ákveðinna eininga - líka innan formlega kerfisins,” segir Þorgerður í viðtali við Viðskiptablaðið.  „Það er verið að horfa til þess hvað fólk kann, og hefja það til vegs og virðingar.”

Fræðslumiðstöð atvinnulífssins hefur séð um hið svokallaða raunfærnimat sem tekur mið af því hver færni vinnufólks er í raun og reynd, en hingað til hefur matið verið miðað gagnvart námsskrá skólakerfanna.

„Það er bara verið að breikka menntakerfið í heild sinni,” segir Þorgerður um raunfærnimatið. „Það er verið að hækka menntunarstigið og í rauninni breikka nálgunina á því sem heitir menntakerfið. Það er verið að breyta um hugsun.”

Hin nýja greining sem SA mun ræða á fundinum miðar helst að því að meta starfshæfni hvers og eins starfsmanns í atvinnugrein sinni innan starfsins sem slíks - og þá ótengt námsskrám. Matið gengur einfaldlega út á að greina hvaða hæfni starfsmaðurinn hefur í starfinu sjálfu.

Þorgerður segir að framtíðarsýn SA sé að mögulega verði hægt að taka tillit til slíkrar hæfnigreiningar í kjarasamningum seinna meir, og að skynsamlegt sé að ræða slíka möguleika í ljósi nýrra kjarasamninga.

„Ein af bókununum er að vinna þetta áfram. ASÍ og SA hafa verið mjög samstíga í þróun menntunar ófaglærðs fólks - fólks sem hefur litla menntun. Þar viljum við reyna að hækka menntastigið. Ánægjulega hafa aðilar vinnumarkaðarins verið frekar samstíga í þessu máli,” segir Þorgerður.

Fundurinn er, sem fyrr segir, haldinn í Húsi atvinnulífsins, en hann hefst klukkan 8.15 að morgni til þann 16. febrúar.