Raungengi krónunnar hefur lækkað nokkuð frá því í október og í lok janúar var það í tólf mánaða lágmarki samkvæmt upplýsingum Seðlabankans. Í Vegvísi Landsbankans segir að raungengið haldist í hendur við nafngengi, þ.e. gengisvísitölu krónunnar. Raungengið lækkaði um 3,4% í janúar frá fyrri mánuði á sama tíma og krónan veiktist um 3,7%.   Raungengi tekur mið af gengi krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum að teknu tilliti til breytinga á verðlagi hér á landi sem erlendis. Það gefur því glögga mynd af kjörum inn- og útflutningsfyrirtækja. Árið 2005 var raungengi mjög hátt en féll hratt á vormánuðum 2006. Fram til október 2007 hækkaði það en er nú tekið að lækka á ný með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á útflutningsgreinar sem hafa átt erfitt uppdráttar vegna sterkrar krónu.