Raungengi íslensku krónunnar lækkaði um 2,1% á milli október og nóvember samkvæmt tölum frá Seðlabankanum. Raungengi er hlutfallsleg þróun verðlags hérlendis miðað við viðskiptalönd og ræðst að mestu leyti af þróun nafngengis og mismunandi verðbólguþróun milli landa.

Í Vegvísi Landsbankans [ LAIS ] segir að lækkunin sé í takt við það sem við var að búast en veiking krónunnar í nóvember nam 2,8%. Miðað við núverandi nafngengi krónunnar spái Greiningardeild Landsbankans frekari lækkun raungengisins á næstu mánuðum. Sögulegt meðaltal raungengis á árunum 1990-2007 er 95,4 stig en það sem af er ári er meðalgengið 108,4 stig. Raungengi er því enn langt yfir sögulegu meðaltali, en í nóvember var það 14% yfir meðaltali síðustu 17 ára.