Raungengi íslensku krónunnar hækkaði um 2,01% í maí og er um 4,8% lægra en það var á sama tíma í fyrra að því er fram kemur í hálffimmfréttum greiningardeildar KB banka.

KB banki bendir á að raungengi krónunnar hafi lækkað um 15% frá því í janúar og "er lækkunin nánast alfarið tilkomin vegna veikingar nafngengis krónunnar sem hefur veikst um rúm 23% frá áramótum. Aftur á móti hefur verðbólga hér á landi verið almennt meiri en í helstu viðskiptalöndum okkar á síðustu mánuðum. Lægra raungengi eykur samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda og ætti að öllu jöfnu að leiða til aukins útflutnings og hamla innflutningi og draga þannig úr halla á viðskiptum við útlönd. Ljóst er að nokkurn tíma tekur fyrir gengi krónunnar að hafa áhrif á utanríkisviðskipti en líklegt er að áhrif lægra gengis fari að gæta 2 til 3 mánuðum síðar. Nýjustu tölur um vöruskipti frá Hagstofu Íslands gefa til kynna að innflutningur hafi náð hámarki í mars en töluverður samdráttur var í innflutningi milli mars og apríl. Á næstu misserum má gera ráð fyrir áframhaldandi samdrætti í innflutningi og vexti í útflutningstekjum þjóðarinnar."

Raungengi mælir verðlag á Íslandi í samanburði við helstu viðskiptalönd og er því með öðrum þræði mælikvarði á samkeppnisstöðu landsins. Gengi krónunnar náði lágmarki í aprílmánuði en jafnaði sig örlítið í maí sem endurspeglast í hærra raungengi.
Innflutningur dregst saman