Raungengi krónunnar stendur hátt um þessar mundir. Ástæðan er mikil hækkun nafngengisins að undanförnu ásamt verðbólgu og launahækkunum umfram það sem gengur og gerist í viðskiptalöndunum. Raungengi krónunnar stendur nú álíka hátt og það gerði á ofþensluárunum 1987-1988 og er 20-24% yfir meðaltali síðustu tíu ára segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

Arnór Sighvatsson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, sagði á fundi sem Verslunarráð stóð fyrir í gær að raungengi krónunnar gæti ekki staðist til lengdar og spurningin væri hve hröð óhjákvæmileg aðlögun verði. Hann sagði að finna yrði rétta tímapunktinn fyrir umskiptin og hvenær heppilegast væri að gengið byrjaði að lækka.

"Líklegast vill Seðlabankinn ekki sjá gengi krónunnar lækka of snemma á hagvaxtartímabilinu. Sennilega telur hann það of snemmt að gengi krónunnar taki að lækka á þessu ári og vill fremur sjá aðlögunina eiga sér stað á næsta ári og/eða á árinu 2007. Óhentugt er fyrir Seðlabankann að takast á við bæði mikla innlenda eftirspurn vegna stóriðjuframkvæmda á næsta ári samhliða því að verðbólga eykst vegna lægri krónu. Því vill hann líklegast fremur sjá gengislækkun eiga sér stað þegar stóriðjuframkvæmdum er lokið eða þegar þeim er að ljúka. Líklegt er að bankinn muni beita vöxtum sínum til að tryggja þessa þróun og þá í leiðinni verðbólgumarkmið sitt. Í þessu sambandi kann bankinn að þurfa að hækka stýrivexti sína talsvert til viðbótar," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.