Raungengi íslensku krónunnar lækkaði um 1,73% milli mánaða í júní og er nú um 9% lægra en á sama tíma í fyrra samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands, segir greiningardeild Kaupþings banka.

?Raungengi mælir verðlag á Íslandi í samanburði við verðlag helstu viðskiptalanda og er því með öðrum þræði mælikvarði á samkeppnisstöðu landsins. Raungengi krónunnar er nú nálægt meðaltali síðustu ára en hefur fallið hratt á síðustu mánuðum og er nú tæpum 17% lægra en í byrjun árs. Lækkunin er alfarið tilkomin vegna veikingar nafngengis krónunnar en gengisvísitalan hefur hækkað um rúm 27% frá áramótum," segir greiningardeildin.

Raungengi ofmetið

Það er stutt síðan að hækkandi húsnæðisverð keyrði áfram verðbólguna, hér á landi. ?Í raun var verðbólga án húsnæðis talsvert lægri hér á landi en í flestum viðskiptalöndum á síðasta ári. Þannig má gera ráð fyrir að ef leiðrétt væri fyrir hækkun húsnæðisverðs væri raungengi nokkuð lægra en tölur Seðlabankans gefa til kynna," segir greiningardeildin.

Þó að húsnæðisverð sé í vísitölu neysluverðs á Íslandi er ekki sömu sögu að segja um flest viðskipta lönd okkar. ?Nú hafa hins vegar orðið vatnaskil og á síðustu mánuðum hefur verðbólga án húsnæðis hér á landi verið almennt meiri en í helstu viðskiptalöndum okkar. Því til stuðnings má nefna að aðeins eitt ríki innan EES býr við meiri verðbólgu en Ísland og verðbólgumismunur á Íslandi og í EES-ríkjunum eykst nú jafnt og þétt og hefur ekki verið jafn mikill í fjögur ár," segir greiningardeildin.

Ætti að draga úr halla á viðskiptum

Greiningardeildin segir að lægra raungengi eykur samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda og ætti að öllu jöfnu að leiða til aukins útflutnings og hamla innflutningi og draga þannig úr halla á viðskiptum við útlönd. ?Ljóst er að nokkurn tíma tekur fyrir gengi krónunnar að hafa áhrif á utanríkisviðskipti en líklegt er að áhrif lægra gengis fari að gæta 2 til 3 mánuðum síðar. ?