Raungengi krónu er um 14% yfir jafnvægisgengi. "Með öðrum orðum þá er krónan ofmetin nú um stundir," segir greiningardeild Kaupþings, en ástæðuna er helst að finna í rýrnun erlendrar eignastöðu þjóðarinnar, sem hefur áhrif á raunvægisraungengi krónunnar.

Raungengi krónunnar mælir breytingu í verðlagi á milli Íslands og umheimsins í sömu mynt. "Ef litið er á raungengi krónu gagnvart evru þá er sagan hins vegar nokkuð önnur og lítur út fyrir að krónan sé í nokkru jafnvægi gagnvart evru. Sömu sögu má segja um breska pundið. Virði krónunnar gagnvart Bandaríkjadal er hins vegar nokkuð ofmetið miðað við jafnvægisgildi en Bandaríkjadalur vegur um 23% í gengisvísitölunni," segir greiningardeildin.

Hún segir að samkvæmt klassískum kenningum hagfræðinnar ætti raungengi að vera fasti þar sem það þýðir í raun að verð á samskonar vörur og þjónustu ætti alltaf að vera það sama milli landa, annars myndu einstaklingar nýta sér verðmuninn til hagnaðar.

"Hins vegar er reyndin sú að raungengið er ekki fasti og sveiflast talsvert yfir tíma. Þó eru hagfræðingar nokkuð sammála því að raungengið hafi eitthvert langtímajafnvægi sem nafngengið geti ekki leitað frá nema til skamms tíma litið. Í því samhengi er talað um jafnvægisraungengi og talað um að gjaldmiðill sé ofmetinn þegar raungengi er hærra en jafnvægisgildi og vanmetið þegar það er lægra," segir greiningardeildin.

Hún segir að ekki sé til ein rétt leið til að meta jafnvægisraungengi en sögulegt meðaltal gæti gefið vísbendingu um það, en hins vegar sé ljóst að stærðin sé ekki föst yfir tíma og geti breyst eftir því sem staðan í hagkerfinu breytist. Greiningardeildin hefur farið þá leið að meta langtímasamband raungengis og þeirra raunstærða sem væru líklegar til að hnika til raungengi í jafnvægi.