Raungengi krónu á fyrri hluta ársins var líklega lægra en það hefur nokkurn tíma verið undanfarin 95 ár segir í Morgunkorni Íslandsbanka. Landið er í þeim skilningi ódýrara heim að sækja fyrir útlendinga nú en nokkru sinni á þessu tímabili, og kaupmáttur landsmanna að sama skapi lítill á erlendri grundu.

Af sögulegri tímaröð sem hagfræðingar Seðlabankans unnu upp úr eldri gögnum ásamt gögnum Seðlabankans sjálfs, og létu sérfræðingum Íslandsbanka í té, má sjá að þótt raungengi krónunnar hafi sveiflast töluvert á tímabilinu frá 1914 til 2008 hafa sveiflurnar verið á tiltölulega hóflegu bili stærstan hluta tímans. Hér verður raunar að skilja undan tímabilið frá upphafi seinna stríðs til loka sjötta áratugarins, þegar gjaldeyrishöft og handstýring innflutnings voru í hámarki og raungengið var afkáralega hátt.

Í Morgunkorni kemur fram að út frá fyrirliggjandi gögnum um fyrstu 5 mánuði ársins og þróun verðlags og nafngengis krónu í júní áætla þeir að raungengi krónu hafi verið u.þ.b. 72 samkvæmt vísitölu Seðlabankamanna á fyrri hluta ársins. ,,Það samsvarar raungengi ríflega 26% undir langtímameðaltali. Vissulega er um margt ólíkt að jafna varðandi væntanlega hreina erlenda stöðu þjóðarbúsins og aðgang að erlendu fjármagni á komandi árum en oft áður, sem gæti haldið raungengi krónu tiltölulega veiku um talsvert langa hríð," segir í Morgunkorni.