Frá því um miðjan október hefur nafngengi krónunnar lækkað um 7%. Fram að þeim tíma hafði krónan styrkst töluvert og leit út fyrir að veikingin frá því fyrr á árinu myndi að mestu ganga til baka, segir greiningardeild Landsbankans.

?Þessar sveiflur endurspeglast einnig í raungenginu miðað við tölur Seðlabankans, en nýlega var desembergildi raungengisins birt (101,6). Í fyrra fór vísitalan lægst í 95,5 stig í júní og hafði þá lækkað um 18,5% frá því í nóvember 2005.

Meðaltal raungengisins fyrir tímabilið 1990-2006 er 94,7 stig þannig að lækkunin á fyrrihluta ársins náði ekki að koma krónunni niður í meðaltalið þó ekki hafi munað miklu. Í október var raungengið komið í 106,1 stig og hefur síðan lækkað aftur um 11,1%. Miðað við núverandi nafngengi krónunnar og okkar spá um verðbólgu má búast við enn frekari lækkun raungengisins á næstu mánuðum og gæti það verið í um 99,0 stigum í febrúar,? segir greiningardeildin.

?Hvort sú raungengislækkun sem nú virðist vera að festa sig í sessi er nægjanlega mikil til þess að leiða fram nauðsynlega aðlögun á utanríkisviðskiptum á eftir að koma í ljós. Að okkar mati ræðst það af því hversu afgerandi tölur um viðsnúning á vöruskiptajöfnuði verða á næstu mánuðum. Láti sá viðsnúningur á sér standa má allt eins búast við enn frekari veikingu krónunnar,? segir greiningardeildin.