Raungengi krónunnar er nú um 30% undir meðaltali síðustu áratuga að því er kemur fram í Morgunkorni Glitnis. Raungengi krónunnar hefur lækkað mikið eða um ríflega 40% frá miðju ári 2007, þegar hin alþjóðlega fjármálakreppa fór að gera vart við sig hér á landi.

Samkvæmt greiningu Glitnis sýnir raungengisþróunin hvað vörur og þjónusta á Íslandi hefur lækkað í verði í samanburði við vöru og þjónustu í öðrum löndum. Lætur nærri að landið sem áður þótti afar dýrt í alþjóðlegum samanburði heim að sækja sé orðið hið ódýrasta meðal landa Vestur-Evrópu. Þessi staðreynd hjálpar nú þeim innlendu atvinnugreinum sem eru í samkeppni við erlendar og ekki síst útflutningsatvinnuvegunum.

Lækkun raungengisins ætti að hjálpa til við að endurreisa  hagvöxtinn sem þá verður að miklu leyti byggður á aukinni verðmætasköpun í þessum greinum. Litið til lengri tíma má reikna með því að raungengi krónunnar færist aftur að meðaltali sínu til lengri tíma þ.e. þegar uppbyggingin er eitthvað á veg komin eftir hrun bankakerfisins. Sagan kennir að bankakreppum fylgir oft talsverð lækkun gjaldmiðilsins sem er í leiðinni tímabundin. Því má reikna með því að krónan styrkist þegar fram í sækir segir Greining Glitnis.