Raungengi íslensku krónunnar hækkaði um 0,9% í september síðastliðnum á mælikvarða hlutfallslegs verðlags samkvæmt greiningu Íslandsbanka. Raungengið hafi hækkað samfellt milli mánaða, að júlí undanskildum, síðan í nóvember á síðasta ári og endurspegli það hækkun nafngengis krónunnar á þeim tíma.

„Gildi raungengisins á ofangreindan mælikvarða er nú komið í 77,3 stig sem er það hæsta sem það hefur verið síðan í mars á síðasta ári. Það sem af er ári nemur hækkunin 14,3%. Þrátt fyrir þessa miklu hækkun er raungengið enn lágt í sögulegu samhengi, eða ríflega fimmtungi undir langtímameðaltali sínu. Þetta kemur fram í tölum sem Seðlabanki Íslands birti í gær," segir í morgunkorni Íslandsbanka.