Raungengi íslensku krónunnar hækkaði um 1,2% í ágúst samkvæmt bráðabirgðatölum Seðlabankans, en þetta er annar mánuðurinn í röð sem raungengi hækkar frá fyrri mánuði. Raungengi er mælikvarði á hlutfallslega þróun verðlags hér á landi samanborið við helstu viðskiptalönd, og mældist vísitala þess 87,6 stig í ágúst.

Frá áramótum hefur raungengi hins vegar lækkað um rúmlega 17%, samkvæmt Greiningardeild Glitnis.

„Lækkun raungengis á árinu má rekja til lækkunar nafngengis, en krónan hefur veikst um 25% frá áramótum. Á móti vegur að verðlag hefur hækkað meira hér á landi en í okkar helstu viðskiptalöndum. Raungengi er einn þeirra mælikvarða sem notaður er til að mæla samkeppnishæfni þjóðarbúsins í alþjóðlegu tilliti og merkir lækkun raungengis batnandi samkeppnisstöðu þeirra innlendu fyrirtækja sem eru í samkeppni við erlenda aðila, bæði útflutningsfyrirtækja og þeirra sem keppa við innfluttan varning. Samhengi er milli raungengis og viðskiptajafnaðar, og teljum við að sú lækkun sem orðin er á raungengi frá áramótum sé veigamikill þáttur í þróun hagkerfisins í átt að betra ytra jafnvægi,“ segir jafnframt í Morgunkorni Glitnis.

Greiningardeild Kaupþings tekur í sama streng og segir ástæðu hækkunar raungengis í ágúst vera annars vegar stöðugt gengi krónunnar og hins vegar að verðlag hér á landi hækkaði umfram verðlag í helstu viðskiptalöndum okkar.

„Þrátt fyrir að mikil lækkun raungengis geti verið hvimleið fyrir heimilin þá bætir það samkeppnisstöðu útflutningsfyritækja verulega. Við lægra raungengi lækka íslenskar vörur í samanburði við erlendar og í þessu tilliti hafa samkeppnisskilyrði íslenskra fyrirtækja batnað verulega á árinu. Þess er vænst að vöruskiptajöfnuðurinn fari að batna enn frekar, en halli á vöruskiptum í ágúst var um 3,4 milljarðar, samkvæmt bráðabirgðatölum sem voru birtar í vikunni. Greiningardeild á von á að vöruskiptin verði komin í jafnvægi í lok árs og að afgangur verði á vöruskiptajöfnuði árið 2009,“ segir í Hálffimm fréttum Kaupþings.