Í Morgunkorni Íslandsbanka kemur fram að á mælikvarða hlutfallslegs verðlags hefur raungengi íslensku krónunnar hækkað sjö mánuði í röð. Frá fyrri mánuði nam hækkunin nú 3,8% og hefur raungengið ekki verið hærra síðan í mars 2009.

Ástæðu hækkunarinnar má að mestu rekja til hækkunar á nafngengið krónunnar um 3,5% á milli apríl og maí. Á sama tíma hækkaði verðlag hérlendis um 0,4% miðað við vísitölu neysluverðs, sem er lítillega umfram verðlagshækkanir í helstu viðskiptalöndum okkar.

Raungengið hefur hækkað um tæp 11% frá því það náði lágmarki sínu í ágúst á síðasta ári. Þrátt fyrir hækkunina er raungengið afar lágt í sögulegu samhengi og er tæpum fjórðungi undir meðaltali síðustu tveggja áratuga. Í nýjustu spá Seðlabanka Íslands er ekki gert ráð fyrir mikilli hækkun raungengis í ár, og talið að það muni haldast lágt á næstu árum vegna mikillar skuldsetningar þjóðarbúsins í erlendri mynt og hárrar áhættuþóknunar á íslenskar fjáreignir.