Raungengi íslensku krónunnar var 79,8 stig í október síðastliðnum og lækkaði um 0,4% á milli mánaða. Vísitala raungengis, á mælikvarða hlutfallslegs verðlags, var 11,5% lægri í október samanborið við sama mánuð árið áður þegar hún nam 90 stigum.

Í apríl 2018 fór vísitala raungengis síðast yfir 100 stig þar sem hún nam 101,5 stigum og var þá 27% hærri en hún er í dag. Á undanförnum árum fór hún hæst í júní 2017 þegar hún nam 105,8 stigum. Þetta er meðal þess sem lesa má úr gögnum Seðlabankans.

Áðurnefnd vísitala hefur ekki verið jafn lág síðan í júlí 2015 þegar hún nam 78,3 stigum. Hún hækkaði talsvert í kjölfar þess lágpunkts eða um þrettán prósent á einu ári. Árið 2013 var hún að jafnaði um 71 stig og talsvert lægri árið 2012 eða um 69 stig.